Skip to content
Vetrarstykki Omnom 2018

Vetrarstykki Omnom 2018

Á hverju ári búum við til sérstakt vetrarstykki sem minnir okkur á jólahátíðina. Í ár vildum við draga fram það bragð sem minnir okkur einna helst á íslenska veturinn. Í okkar huga er ekkert vetrarlegra en kaldar nætur, myrkur, kertaljós, hlý föt og drykkir sem ylja. Með þessar hugmyndir að leiðarljósi hófum við að leika okkur í eldhúsinu. Við byrjuðum á því að einblína á kaffi og ýmis krydd sem kynda undir bragðlaukana. Síðan bættum við rúsínum við, sem leiddi okkur að jólaglöggi og úr varð bragðbomba sem hefur fengið nafnið Drunk Raisins + Coffee.

Við byrjuðum á því að blanda saman sírópi og safa úr mandarínum sem við hrærðum saman við gæðavanillu frá Madagaskar, Ceylon kanil ásamt indverskri kardimommu. Til þess að fullkomna blönduna, bættum við dassi af austurrísku rommi í uppskriftina.

Rúsínurnar fengu að marinerast í mánuð áður en við þurrkuðum þær og handskárum niður í litla bita sem við dreifðum ofan á sjálft súkkulaðið (engar áhyggjur, það er ekkert áfengi í súkkulaðinu).

Súkkulaðið var búið til úr kakóbaunum frá Tansaníu en finna má keim af apríkósum, heslihnetum og rúsínum í baununum. Við bættum síðan brasilísku kaffi við súkkulaðið til að gefa því extra jólakeim og að lokum íslenskri mjólk.

Nú er tíminn til að koma sér vel fyrir upp í sófa í uppáhalds ullarsokkunum, kveikja á kertum og borða súkkulaði sem bragðast alveg nákvæmlega eins og þessi notalega stund.

Vetrarstykki Omnom kemur í verslanir 1. nóvember og er einungis til í takmörkuðu upplagi. 

Hátíðarkveðja

-Omnom teymið

Older Post
Newer Post

Shopping Cart

Your cart is currently empty

Shop now