Skip to content
Back in black: New recipe

Black N´Burnt í nýjum búning


Á þeim sjö árum frá því að Omnom var stofnað höfum við nokkrum sinnum hætt framleiðslu súkkulaðistykkja eða breytt og betrumbætt uppskriftum. Ástæðurnar eru oft misjafnar, stundum vegna þess að ákveðin hráefni í uppskrift verða ófáanleg eða að hráefni mæta ekki þeim stöðlum sem við höfum sett okkur. En fyrst og fremst snýst þetta um bragð, að bragðið sé nógu gott og við hættum aldrei fyrr en að við erum 100% sátt.

Black n´Burnt Barley er afar sérstakt súkkulaði fyrir þær sakir að við vorum ekki að reyna að finna þá uppskrift, heldur fann hún okkur. Við ákváðum ekki að búa til svart súkkulaði því það væri svo öðruvísi og skemmtilegt. Upprunalega hugmyndin var að þróa klassískt hvítt súkkulaði með dass af karamellutónum. Eftir nokkrar umferðir, fyrir einstaka tilviljun, duttum við niður á sérstaka tegund af ristuðu byggi sem yfirleitt er notað við bruggun á porter og stout-bjórum. Þessi óvænta viðbót umbreytti öllu við súkkulaðið sem var í þróun, og allt í einu varð hvíta sukkulaði okkar svart!

Byggið gaf súkkulaðinu ristaðan keim og grófari áferð, ásamt vægum tónum af lakkrís og kaffi. Algjörlega ólíkt öllu öðru sem við höfðum smakkað áður. Við vissum að hér værum við með eitthvað sérstakt í höndunum. Vikum seinna, var uppskriftin tilbúin, eða svo héldum við á þeim tíma. Með tveimur mismunandi tegundum af byggi, malt hveiti, mjólkur dufti, sjávarsalti og leynihráefninu, virkjuðum kolum, sem gefur súkkulaðinu þennan einkennandi lit. Til að kóróna upplifunina, poppuðum við bygg frá Vallanesi og dreifðum því ofan á súkkulaðið til að gefa bragðupplifuninni aukinn stökkleika og úr varð þetta einstaka súkkulaðistykki.

Í þróunarferlinu prufuðum við ýmsar leiðir, en ein af þeim var að sleppa mjólkinni í uppskriftinni og notast þess í stað við ögn meira af byggi. Sú útfærsla gaf súkkulaðinu mun einbeittara og kröftugra bragð. Án mjólkur voru allir bragðtónar skýrari, þó súkkulaðið sjálft væri ekki eins kremað. Við vorum svo fókuseruð á að fylgja hinni klassísku uppskrift af hvítu súkkulaði að hugurinn leiddi okkur aldrei áfram í þá átt að leika okkur með þá hugmynd frekar.

Í gegnum faraldurinn höfum við haft aukinn tíma til þess að leika okkur með nýjar hugmyndir, sem og endurvekja gamlar uppskriftir. Það tók okkur ekki margar tilraunir til þess að sannfæra okkur endanlega um það, að mögulegt væri að gera Black n’ Burnt enn betra.

Við höfum alltaf fylgt þeim leiðarvísi að besta bragðið stjórnar ferðinni, en sú ákvörðun að sleppa mjólkinni og leyfa bygginu að njóta sín betur, bragðast einfaldlega betur.

Bragðið af bygginu er mun skemmtilegra, meira lifandi og ríkulegt af karakter. Maltið fær að njóta sín betur í samblandi við virkjuðu kolin sem fá veigameira hlutverk.

Við munum vissulega sakna þessarar kremkenndu áferðar sem kom með mjólkinni, en í breyttri mynd færir súkkulaðið náttúrulegri og líflegri upplifun. Við vonum að aðdáendur BBB taki vel í þessa kærkomnu breytingu, og að þið verðið jafn ánægð og við erum.

Older Post
Newer Post

Is this a gift? Send a card to the recipient - just leave your message in the note box below.

Shopping Cart

Your cart is currently empty

Shop now