Skip to content

Hráefnið Okkar

Hráefnisöflun Omnom

Við hjá Omnom höfum einsett okkur að búa til besta súkkulaði sem völ er á úr besta mögulega hráefninu. Það felur ekki einungis í sér miklar kröfur til súkkulaðigerðarinnar, allt frá baun yfir í súkkulaðistykki, heldur einnig miklar kröfur um það hvernig við öflum og kaupum hráefni til notkunar í þessu ferli.

Helstu innihaldsefnin okkar eru kakóbaunir og sykur. Allt frá byrjun hefur markmið okkar verið að rannsaka muninn á bragði kakós frá mismunandi stöðum eða uppruna. Eins og er kaupum við kakóbaunir frá þremur sérstökum upprunastöðum.

 

Kakóbaunir

Madagaskar

Fyrst af öllu féllum við fyrir kakóbaunum Bertils Akesson frá Madagaskar. Eins og hjá mörgum öðrum sem handgera súkkulaði og byrja í eldhúsinu heima voru þetta meðal fyrstu baunasýnishornanna sem við fengum í hendur. Það er gild ástæða fyrir frægð Bertils í þessum geira; baunirnar frá honum eru með ríkum ávaxtakeim og hárréttu sýrustigi.

Mynd: Akesson's

Það er að hluta til vegna mikilla gæða vinnsluaðferða hans að uppskeru lokinni. Við kaupum kakóbaunir beint frá tilteknum reitum á ræktarlandinu á búi hans í grennd við Ambanja í Sambirano-dalnum. Þessar vottuðu lífrænt ræktuðu baunir hafa ávallt sömu eiginleika og eru gerjaðar og þurrkaðar á sérstakan hátt sem gefur þeim hið sérstæða bragð. Þær hafa verið notaðar í nokkur af súkkulaðistykkjunum okkar sem hlotið hafa ein 28 alþjóðleg súkkulaðiverðlaun hingað til.

 

Tansanía

Við viljum gjarnan stuðla að samfélagsbreytingum gegnum kaupstyrk okkar. Við vorum svo heppnir að kynnast Simran og Brian frá Kokoa Kamili, sem eru snillingar á sviði samfélagslegra áhrifa. Þeir vinna með bændum í Kilombero-dalnum í Tansaníu að því að bæta gæði kakós á þessu svæði. Að meðaltali hafa hagsmunaaðilar þeirra fengið 24% yfir markaðsverði fyrir kakóið sitt, sem er alveg frábært! Á þriggja ára tímabili hefur Kokoa Kamili einnig dreift meira en 140.000 ungplöntum til bændanna til að fjárfesta í framtíð kakósins á svæðinu.

Mynd: Kokoa Kamili

Þá eru ný verkefni hjá Kokoa Kamili einnig að ryðja nýjar brautir. Til að svara aukinni eftirspurn eftir þessum ljúffengu kakóbaunum eru þeir að byggja nýja starfsstöð til að gerja og þurrka vottuðu lífrænt ræktuðu baunirnar á skilvirkan hátt. Síðan áætla þeir að bæta vegi að helstu aðgerðasvæðum sínum, en nú tekur rúmlega hálfan sólarhring að komast þangað á malarvegum og timburbrúm gegnum afríska skóglendið.

 

Níkaragva

Snemma vors árið 2017 hófum við samstarf við Ingemann í Níkaragva. Í þeirri ferð opnuðust augu okkar fyrir því hversu yfirgripsmikil kakórækt og -vinnsla í rauninni er. Við hittum bændur og fórum í gegnum aðferðir við fræðslu til bænda, endurágræðslu róta og vinnslu níu mismunandi afbrigða af kakófræjum. Við völdum O'Payo™, lífrænt ræktaða afbrigðið sem þau bjóða upp á.

Mynd: Omnom

Í þessari fyrstu öflunarferð komumst við á snoðir um það hversu miklu máli útgreiðsla til bænda skiptir, hvað er hægt að gera til að bæta vinnsluaðferðir eftir uppskeru og hversu gríðarlanga vegalengd kakóið ferðast áður en það kemur í verksmiðjuna okkar á Íslandi. Auðkenningaráætlun Ingemann fyrir kakó tryggir einnig fullkominn og ítarlegan rekjanleika hvers einasta poka sem við kaupum.

 

Reyrsykur

Helstu athugunarefnin í sykurræktun eru umhverfisleg og félagsleg. Skógeyðing er þar efst á baugi og fast á hæla henni koma vafasamar aðferðir sem snúa að vinnuafli. Omnom Chocolate leitaði uppi samstarfsaðila sem hafði áralanga reynslu af sjálfbærri og siðlegri sykurræktun í grennd við São Paolo í Brasilíu. Þar hefur áætlunin Native Green Cane Project verið starfrækt til að snúa við skógeyðingu og auka líffræðilega fjölbreytni frá árinu 1986. Markmið áætlunarinnar er að setja upp algjörlega sjálfbært og samþætt kerfi til að rækta, uppskera og mala reyrsykur.

Mynd: Omnom

Sykurinn sem við kaupum þaðan er með fleiri en 10 vottanir, þar með talið „Organic“ (lífrænt ræktað), „Fair for Life“, „Fair Trade“ (sanngjörn viðskipti) og „Non-GMO“ (ekki erfðabreyttar lífverur). Áætlað er að komið hafi verið í veg fyrir losun alls 47.000 tonna af koltvísýringi út í andrúmsloftið í gegnum uppskeruaðferðir þeirra, og allur lífúrgangur úr vinnslunni er notaður til að kynda gufuknúinn bræðsluofn. Þetta myndar næga orku fyrir alla sykurmölunina og meira að segja nágrannaborgina líka. Native jók einnig jarðvegsgæðin og þrefaldaði vatnsheldnina. Í heild er líffræðileg fjölbreytni á vistvænum býlum þeirra 23 sinnum meiri en á hefðbundnum sykurreyrsbýlum. Að því er vinnuafl varðar hafa þau skuldbundið sig til að greiða sanngjörn laun, veita víðtækar sjúkratryggingar fyrir starfsmenn og fjölskyldur þeirra og bjóða upp á öruggt starfsumhverfi. Þau eru aðilar að SMETA-samtökunum (SEDEX Members Ethical Trade Audit) sem eru í fararbroddi á sviði úttekta og skýrslugerðar um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja.

Hér má finna skýrsluna í heild sinni. Vinsamlegast athugið að skýrslan er á ensku:  Transparency Report for 2017

Is this a gift? Send a card to the recipient - just leave your message in the message box below.

Shopping Cart

Your cart is currently empty

Shop now