Skip to content
SuperChocoBerryBarleyNibblyNuttylicious

SuperChocoBerryBarleyNibblyNuttylicious

SuperChocoBerryBarleyNibblyNuttylicious (reyndu að segja þetta hratt 10 sinnum) er svo sannarlega ofurfæða út í gegn. Möndlur, bygg, trönuber, kakónibbur og silkimjúkt 70% dökkt súkkulaði búið til úr lífrænum kakóbaunum frá Tansaníu. Hver einasti munnbiti veitir þér orku og ómælda gleði hvort sem þú ert á leiðinni upp á fjall, í lautarferð, útilegu, í kósí út á svölum eða hreinlega í sófann yfir Netflix. Þetta súkkulaði er ómissandi ferðafélagi um landið í sumar, hvert sem þú ferð.

,,Í nokkrar vikur stóð heimurinn í stað og þegar fólk stendur frammi fyrir nýjum og breyttum aðstæðum þá fæðast gjarnan nýjar hugmyndir. Við þurftum, eins og allir aðrir, að loka súkkulaðigerðinni okkar um tíma en þar hef ég varið öllum mínum stundum undanfarin sjö ár.

Ég ákvað að kíkja í tilraunaeldhúsið og fór þar að leika mér að hráefnum sem við áttum til nú þegar og úr varð nýtt súkkulaði.

Ég elska dökkt súkkulaði, sérstaklega úr kakóbaunum frá Tansaníu, og byrjaði því á að búa til grunn úr þeim baunum. Þær eru svo skemmtilega bragðgóðar, gefa náttúrulega sætu og finna má bragðtóna í átt að steinávöxtum og bönunum. Ég vildi gefa súkkulaðinu auka kikk með því að strá stökkum möndlum yfir súkkulaðið sem búið er að velta upp úr saltvatni. Því næst bætti ég við poppuðu byggi frá Vallanesi, en fannst það einhvern veginn ekki nóg. Til að fá extra stökkleika bætti ég kakónibbum við og til að fullkomna blönduna bætti ég trönuberjum ofan á súkkulaðið en þau gefa mýkt og sæta beiskju. Ég vona að þið njótið Super Choco súkkulaðsins okkar jafn vel og ég á ferð ykkar um landið í sumar. 

Gleðilegt sumar!

Kjartan Gíslason, annar stofnandi Omnom og súkkulaðigerðarmaður

Older Post
Newer Post

Shopping Cart

Your cart is currently empty

Shop now