Verndari villikatta
Þið kannizt við jólaköttinn,
– sá köttur var gríðarstór.
Fólk vissi ekki hvaðan hann kom
eða hvert hann fór.
Jóhannes úr Kötlum
Jólakötturinn er óvættur í hugum margra vegna ásýndar hans. Hann er ófrýnilegur að sjá, ógurlegur og almennt talinn illur. Börn hræðast köttinn og hann heldur fyrir þeim vöku dagana fyrir jól.
Það er á huldu hvenær jólakötturinn laumaði sér inn í hug og hjörtu íslensku þjóðarinnar en rétt fyrir jól lætur hann á sér kræla og fyllir börn og fullorðna hræðslu þar sem sagan segir að hann éti fólk sem ekki fær nýjar flíkur fyrir jólin. Hvaðan sú saga er sprottin er ekki á hreinu en líklegt þykir að hugmyndin um jólaköttinn hafi upphaflega verið notuð sem hræðsluáróður til að heimilisverk yrðu kláruð fyrir jólahátíðina.
Í eðli sínu eru íslenskir villi-og vergangskettir hvorki illir né ógurlegir en vegna ömurlegra aðstæðna, yfirleitt af mannavöldum, eru þeir illa á sig komnir og varfærir, sérstaklega gagnvart mannfólki sem þeir ekki þekkja. Í okkar huga er jólakötturinn verndari villikatta á Íslandi. Jólakötturinn minnir okkur á að hugsa til allra þeirra villikatta sem eru á flakki um landið; katta sem annaðhvort hafa verið yfirgefnir eða flúið heimili sín.
Tilvist katta í neyð er staðreynd á Íslandi og á meðan ekki er skipulagt hvernig eigi að sinna þeim er erfitt að koma í veg fyrir fjölgun þeirra. Dýraverndunarfélagið Villikettir var stofnað af nokkrum ástríðufullum einstaklingum sem í sjálfboðaliðastarfi sínu sinna þessum köttum. Markmið Villikatta er að stuðla að því að koma þessum dýrum til hjálpar með skipulögðum aðgerðum og koma í veg fyrir fjölgun þeirra. Þar vegur þyngst að ná dýrunum og gelda. Þá leitast samtökin einnig eftir að finna góð heimili fyrir villi-og vergangskettlinga sem búið er að hlúa að.
Omnom styður við dýraverndunarfélagið Villiketti með sölu á Omnom vetrarstykkinu í ár. Vetrarstykkið kemur í verslanir 1. nóvember og er einungis til í takmörkuðu upplagi.