Skip to content
Súkkulaði fyrir mömmu og pabba

Súkkulaði fyrir mömmu og pabba

Til að komast í jólafíling er gott að huga að ýmsum nauðsynjum. Kertaljós og kósý teppi, góð bók eða jólabíómynd stútfull af gervisnjó, rómantík og jólalögum. 

En fátt gegnir jafnmiklu lykilhlutverki í uppskriftinni að góðum jólafíling eins og gott súkkulaði. Ekki er verra ef súkkulaðið er innblásið af einni jólalegustu hljómsveit allra tíma, Baggalút. 

Í tilefni af tónleikaröð Baggalúts kynnum við nýjustu súkkulaðistykkin okkar, Mamma þarf að djamma og Pabbi þarf að vinna. Til að koma mömmu í gírinn, lögðum við nokkrar stálheppnar Madagaskar kakóbaunir í sætan og stimamjúkan beilís-lög, sem þær drukku í sig — enda sérlega móttækilegar fyrir írska drykkjarsjarmanum. Að svo búnu blönduðum við 45% súkkulaði úr ofdekruðum baununum á móti strangheiðarlegri íslenskri mjólk. Loks stráðum við niðurbrotnum beilís-löðrandi kakóflísum yfir herlegheitin, allt til að búa mömmu undir átökin. En til róa pabba eftir erfiða nótt með mönnunum dugar ekkert minna en viskíleginn súkkulaðimoli. Hið margslungna Tallisker eyjaviskí frá Skotlandi stígur hér fram, angandi af reyk og eik og æsir upp angurværa berjatóna Madagaskar kakóbaunarinnar. Til að halda bragðlaukunum við efnið bættum við ögn af appelsínuberki og angandi biturðarvíni út í blönduna. Allt fléttast þetta saman eins og djúpsannur köntríslagari á krossgötum.

Þessi súkkulaðitvenna verður eingöngu til sölu á jólatónleikaröð Baggalúts í Háskólabíó, en fyrstu tónleikarnir fara fram þann 6. desember næstkomandi. Súkkulaðið er því kjörin jólagjöf fyrir mömmur sem djamma og pabba sem vinna. Jú og svo alla hina líka! 

Megi jólahátíðin vera stútfull af góðum stundum, sætu súkkulaði og kósíheitum par excelans.

Older Post
Newer Post

Shopping Cart

Your cart is currently empty

Shop now