Vetrarlína Omnom sækir innblástur í íslenskar jólahefðir sem ylja landsmönnum um hjartarætur með minningum liðinna jóla.
Þessi gjafaaskja hefur að geyma þrjú súkkulaðistykki sem standa hjörtum okkar nærri.

Spiced White + Caramel
Innblásið af jólaöli
Appelsínur og malt. Malt og Appelsín. Kryddað, maltað hvítt súkkulaði með appelsínuberki, kanil og stökkri karamellu. Þessi blanda kemur öllum í jólafíling. Flestir Íslendingar halda fast í þessa ríkulegu hefð af hátíðlegri bragðupplifun, sem er engri lík. Við vildum fanga þessa hefð með okkar eigin hætti í einstöku súkkulaði sem er sannkallaður óður til jólanna.

Milk + Cookies
Jól liðinna tíma
Það er ómögulegt að hugsa til jóla án þess að upp komi í hugann minning um piparkökur og glas af ískaldri mjólk. Við vildum ólm fanga þessa minningu Við lékum okkur með uppskriftina þar til jólaandinn sveif yfir okkur og fullkomnun var náð. Í smákökunni má finna hafra, appelsínubörk og ríkulegt magn af engifer og kanil. Til að toppa bragðið, má finna dass af cayenne pipar. Smákökurnar liggja í ljúfum faðmi Madagaskar mjólkursúkkulaðis og saman er þetta par ósigrandi.

Dark Nibs + Raspberry
Óður til berjanna
Madagaskar kakóbaunin á sérstakan stað í okkar hjarta. En hún er upphaf okkar, fyrsta ástin. Margslungnir, fíngerðir tónar og fislétt rauðberjabragðið gerir Madagaskar 66% súkkulaðið að einu stóru ástarævintýri fyrir bragðlaukana. Líkt og hefðin er á jólum, vildum við einnig klæða súkkulaðið okkar í sparifötin. Hátíðlega fagurrauð hindber með sinn sérstaka sæta keim, pöruð með vænlegu dassi af kakónibbum fullkomna pakkann.